Félag stúdenta við Háskólann á Akureyri boðar til lagabreytingafundar 6. febrúar kl. 11:40 í stofu N102. Þar verður kynnt tillaga stúdentaráðs að nýjum lögum félagsins og borin undir félagsmenn.
Hér er hægt að nálgast tillögurnar. Stúdentaráð áskilur sér þó rétt til að leiðrétta villur sem kunna að leynast í skjölunum.
Eftirfarandi er orðsending frá starfshópnum sem vann lagabreytingatillöguna:
Stúdentaráð skipaði starfshóp á sínum vegum á 16. fundi ráðsins 7. nóvember 2012. Í hópnum sátu framkvæmdastjórn félagsins, Birgir Marteinsson, formaður Þemis og Hafdís Erna Ásbjarnardóttir, fulltrúi stúdenta í háskólaráði. Hópurinn vann tillögur að lagabreytingum og fékk til liðs við sig þá aðila sem hópurinn taldi að nauðsynlegt væri að hafa samráð við, þegar lögin væru endurskoðuð, þar á meðal fulltrúa Félags stúdenta við Háskólann á Akureyri, náms- og starfsráðgjafa háskólans, verkefnastjóra alþjóðamála, markaðs- og kynningarstjóra og fleiri.
Markmið þeirrar vinnu sem ráðist var í var að endurskoða lög félagsins í heild sinni. Endurskipulagning félagsins hefur staðið yfir nú í að verða þrjú ár og er þessum lagabreytingum ætlað að fylgja því ferli eftir og leggja lokahönd á þær miklu breytingar sem átt hafa sér stað innan félagsins undanfarið og aðlaga lögin að núverandi starfsemi félagsins og þeirri framtíðarsýn sem félagið hefur.
Lagt var mikið uppúr því að einfalda lögin, fella út lagagreinar sem ekki eiga við lengur og gera lögin „tímalausari“ ef svo mætti að orði komast. Þessar breytingar gefa æðsta ákvörðunarvaldi félagsins möguleika á að sníða verklagsreglur að starfseminni hverju sinni og vinna úr hnökrum sem upp kunna að koma.
Er það einlæg von hópsins að þessar breytingar nái fram að ganga, enda er það samdóma álit þeirra sem að þeim komu, þeirra sem rætt hefur verið við og yfirstjórnar háskólans, að þær verði félaginu til framdráttar.
Vonumst til að sjá sem flesta á fundinum!
↧